Duggari ungbarnapeysa
Duggari ungbarnapeysa
Duggarapeysan vinsæla er hér útfærð fyrir minnstu krílin. Sama mynstur er á berustykki en kraginn er lægri en á fullorðins- og barnapeysunum. Til þess að auðveldara sé að klæða þau minnstu í peysuna er klauf prjónuð í einn laskann, sem er svo lokað með tölum.
Prjónað er frá hálsmáli, fram og til baka í byrjun. Byrjað er á stroffi, berustykkið svo prjónað með laskaútaukningum. Þegar klaufin er orðin nógu löng er tengt í hring og prjónað áfram að handvegi. Þegar kemur að handvegi er skipt í bol og ermar sem áfram eru prjónuð í hring.
Stærðir: 0-3-6-9-12-24 mánaða / Bolvídd peysu 44-46-52-57-61-66 sm. (Fatastærð u.þ.b. 56-62-68-74-80-92)
Prjónfesta: 24 lykkjur og 32 umferðir í sléttu prjóni = 10*10 sm.
Prjónar: Fyrir bol og ermar: Stuttir hringprjónar og sokkaprjónar nr. 3½ eða sú stærð sem gefur rétta prjónfestu. Fyrir stroff: Sokkaprjónar og hringprjónar nr. 3. Einn langur hringprjónn í hvorri stærð er nóg ef töfralykkja er notuð.
Garn: Garn að eigin vali sem hæfir prjónfestunni. Ljósa peysan á myndinni er prjónuð úr Isager Eco Baby (50 gr = 150 m) í lit E0. Sé annað garn valið þarf að huga að garnþörf. Mælt er með náttúrulegu garni, gjarnan lífrænu, sem er ekki of loðið. Það þarf u.þ.b. 100-100-150-150-150-200 g í peysuna.
Erfiðleikastig: 3 af 5. Uppskriftin krefst þekkingar á grunnatriðum í prjónaskap s.s. að fitja upp, prjóna slétt og brugðið, auka út til hægri og vinstri, fækka lykkjum með því að prjóna 2 saman til hægri og vinstri, og fella af. Einnig eru gerð hnappagöt. Helstu skýringar á prjónatækni eru í uppskriftinni ásamt vísun á leiðbeiningamyndbönd.
Við kaup á uppskrift færð þú tölvupóst með hlekk á pdf skjal til niðurhals. Um leið og smellt er á hlekkinn hleðst skjalið sjálfkrafa niður. Stundum þarf að leita í Niðurhal/Downloads möppunni eða Skrárnar mínar/My Files möppunni til að finna það. Niðurhal er takmarkað við fjögur skipti.