EMBLA PEYSA
EMBLA PEYSA
Embla er létt og mjúk, með fínlegu mynsturprjóni á berustykki og snúnum lykkjum í stroffi. Hálsmálið er rúmt og handvegurinn frekar síður. Tvær útfærslur eru gefnar í uppskriftinni. Annars vegar mittispeysa með kvartermum, sem til dæmis er fín yfir kjóla eða háar buxur. Hins vegar síðari peysa með ermum í venjulegri lengd.
Prjónað er frá hálsmáli og niður, svo auðvelt er að aðlaga sídd og ermalengd. Berustykkið er prjónað eftir mynsturteikningu og gerð hækkun á baki. Svo er skipt í bol og ermar og prjónað slétt í hring.
Stærðir: 1 – 2 – 3 – 4 – 5 – 6 – 7 / Bolvídd peysu 91 – 100 – 109 – 116 – 124 – 133 – 140 sm. Mælt er með að velja stærð með a.m.k. 7 sm í hreyfivídd. Ljósa peysan á myndunum er prjónuð með 7 sm hreyfivídd en sú bláa er "oversized" með um 23 sm hreyfivídd.
Prjónafesta: 18 lykkjur í sléttu prjóni = 10×10 sm.
Prjónar: Langir og stuttir hringprjónar/sokkaprjónar nr 3,5 og 4,5 eða sú stærð sem gefur rétta prjónafestu. Ef töfralykkja er notuð þarf ekki sokka- og ermaprjóna. Grófari prjónn til að fitja upp með.
Garn: Midnatssol frá CaMaRose (25 gr = 200 m) prjónað með tveim þráðum. Silki/mohair blanda eða annað garn með svipaða eiginleika kemur einnig til greina. Það þarf um 125-150-150-175-175-200-200g í styttri peysuna og um 200-225-225-250-250-275-275g í þá síðari.
Erfiðleikastig: 2-3 af 5. Meðal annars er eftirfarandi tækni beitt: Mynsturprjón. Útaukning og úrtaka til hægri og vinstri, þrjár lykkjur prjónaðar saman (tvær aðferðir) og þrjár lykkjur prjónaðar úr einni. Stuttar umferðir. Mynsturteikning sem sýnir útaukningar, helstu skýringar og vísun á leiðbeiningamyndbönd eru í uppskriftinni.
Við kaup á uppskrift færð þú tölvupóst með hlekk á pdf skjal til niðurhals. Um leið og smellt er á hlekkinn hleðst skjalið sjálfkrafa niður. Mælt er með að nota tölvu frekar en síma. Stundum þarf að leita í Niðurhal/Downloads möppunni eða Skrárnar mínar/My Files möppunni til að finna skjalið. Niðurhal er takmarkað við fjögur skipti.