LOKI LOPAPEYSA
LOKI LOPAPEYSA
Loki er klassísk lopapeysa sem hentar öllum kynjum og aldurshópum. Ég fékk ósk frá mínum manni um nýja peysu þar sem eina skilyrðið var að mynstrið yrði blátt. Úr varð nýtt mynstur með þessum fallega sæbláa lit. Viðtakandinn hefur dálæti á nafninu Loki og því kom ekkert annað nafn til greina á peysuna.
Prjónað er neðan frá og upp. Bolur og ermar eru prjónuð í hring og svo sameinuð á einn prjón við handveg. Eftir sameiningu eru prjónaðar stuttar umferðir yfir bakhluta berustykkisins til að hækka peysuna að aftan (hægt að sleppa). Svo er mynstrið prjónað eftir mynsturteikningu og lykkjum fækkað með reglulegu millibili. Að lokum er kraginn prjónaður og lykkjaður eða saumaður niður í innanvert hálsmálið.
Stærðir: 1 – 2 – 3 – 4 – 5 – 6 – 7 / Bolvídd peysu 89 – 97 – 102 – 109 – 117 – 122 – 129 sm.
Prjónfesta: 13 lykkjur í sléttu prjóni = 10 sm.
Prjónar: Fyrir stroff: Sokkaprjónar nr. 4½ og hringprjónar 40 og 80 sm langir. Fyrir bol og ermar: Hringprjónar nr. 6 eða það sem gefur rétta prjónafestu; 40, 60 og 80 sm langir eða lengri eftir stærð peysu. Einn langur hringprjónn í hvorri stærð er nóg ef töfralykkja er notuð.
Garn: Plötulopi (100 g = um 300 m) prjónaður þrefaldur. Peysan á myndunum er prjónuð úr litum 1026 Fölgrár, 2025, Blágrænn og 1030 Ljósmórauður. Einnig er hægt að nota Álafosslopa, Icewear Double Saga eða sambærilegt. Það þarf u.þ.b. 600-650-700-700-750-800-850 g af plötulopa í aðallit, og á bilinu 120-210 g af mynsturlitunum í peysuna.
Erfiðleikastig: 2-3 af 5. Uppskriftin krefst þekkingar á grunnatriðum í prjónaskap s.s. að fitja upp, prjóna slétt og brugðið, fella af og auka út til hægri og vinstri. Prjónað er eftir litamynstri, tví- og þríbandaprjón ásamt því að gerðar eru úrtökur þar sem tvær lykkjur eru prjónaðar saman. Mynsturmyndir, helstu skýringar og vísun á leiðbeiningamyndbönd eru í uppskriftinni.
Við kaup á uppskrift færð þú tölvupóst með hlekk á pdf skjal til niðurhals. Um leið og smellt er á hlekkinn hleðst skjalið sjálfkrafa niður. Stundum þarf að leita í Niðurhal/Downloads möppunni eða Skrárnar mínar/My Files möppunni til að finna það. Niðurhal er takmarkað við fjögur skipti.